Starfsemi

Meginhlutverk Birtu er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri.

Starfsemi sjóðsins

Birta lífeyrissjóður er fullgildur lífeyrissjóður og hefur starfsleyfi samkvæmt Seðlabanka Íslands

Starfsemi Birtu lífeyrissjóðs lýtur að móttöku, varðveislu og ávöxtun iðgjalda og greiðslu lífeyris. Sjóðurinn er starfræktur í þremur deildum: samtryggingardeild sem tekur við lögboðnum samningsbundnum iðgjöldum, samningsbundinni tilgreindri séreignardeild og séreignardeild. Fjárhagur deildanna er aðskilinn og þær bera ekki fjárhagslega ábyrgð hver á annarri. Rekstrarkostnaði er skipt milli deilda í hlutfalli við umfang hverrar deildar samkvæmt reglum sem stjórn sjóðsins setur.

Tryggingavernd og fjármálaþjónusta Birtu
Skyldusparnaður, séreignarsparnaður og sjóðfélagalán
Lífeyrir
 • Skyldusparnaður leggur grunn að lífinu eftir starfslok.
 • Skyldusparnaður veitir rétt til örorkulífeyris, makalífeyris og barnalífeyris.
 • 15.300 lífeyrisþegar nutu lífeyrisgreiðslna á árinu.
Séreign
 • Viðbót við lögbundinn lífeyrissparnað.
 • Eign sjóðfélaga sem erfist að fullu.
 • 2.452 virkir sjóðfélagar greiddu í séreignardeild á árinu.
Lán
 • Lántakendur geta valið um verðtryggð lán með breytilegum eða föstum vöxtum.
 • Viðbótarlán fyrir kaupendur fyrstu fasteigna.
 • 1.383 nýjar lánveitingar til sjóðfélaga á árinu.
Fjöldi greiðandi og virkra sjóðfélaga
Tölur síðustu 5 ára
Samtryggingardeild 2020 2019 2018 2017 2016
Fjöldi virkra sjóðfélaga 16.014 15.805 16.284 15.882 15.927
Heildarfjöldi greiðandi sjóðfélaga 18.205 18.284 18.806 18.789 18.470
Fjöldi lífeyrisþega 15.300 14.568 13.789 12.944 12.058
Fjöldi sjóðfélaga 98.745 97.630 96.412 94.866 93.000

Þú ert nr. 1 í röðinni

Viðskiptaþróun í rekstri Birtu

Sjóðurinn leggur áherslu á góða þjónustu og ferla sem tryggja skilvirkni og öryggi fyrir sjóðfélaga. Flestar umsóknir sem berast sjóðnum fara í gegnum rafrænt umsóknarferli þar sem málum er fylgt eftir frá upphafi til enda. Málið hefst í gáttinni á mínum síðum sjóðfélaga og flæðir þaðan inn í málakerfið þar sem starfsmaður tekur á móti málinu. Þau mál sem berast ekki með rafrænum hætti eru skráð í málakerfið þar sem málið er stofnað af starfsmanni og málsmeðferð hefst. Um leið og mál er stofnað í kerfinu er því fylgt eftir með rekjanleika í ákveðnum skrefum í samræmi við verklagsreglur og vinnulýsingar.

Verklagið tryggir samræmda og faglega afgreiðslu mála.

Rafrænt umsóknarferli léttir á skráningum og eykur afgreiðsluhraða auk þess eykur það öryggi í samskiptum með rafrænni auðkenningu.

Gagnagreining og mælaborð sem auka skilvirkni

Með mælaborðinu er hægt að skoða stöðu mála og fylgjast með ferli þeirra

Birta lífeyrissjóður fylgir málum eftir með mælaborði (MS Power BI). Gögn eru oft á tíðum umfangsmikil og vanýtt auðlind en með því að fylgjast með ferli mála er hægt að skoða hvaða tækifæri eru til að bæta þjónustu og efla viðskiptaþróun. Með mælaborðinu hafa starfsmenn Birtu aðgang að margskonar upplýsingum um stöðu mála, rekstur sjóðsins, tækifæri til hagræðingar og möguleika til að ná betri árangri.

Mælaborð Birtu er byggt upp úr gögnum úr skjala- og málakerfinu GoPro. Gögnin keyrast sjálfvirkt inn í mælaborðið tvisvar á dag sem gefur starfsmönnum möguleikann á að fylgjast með stöðu mála í rauntíma. Mælaborðið sýnir með myndrænum hætti hvar í ferlinu umsóknir eru á hverjum tíma fyrir sig og hversu margar umsóknir koma inn á dag. Einnig er að finna afgreiðsluhraða á öllum fösum umsóknarferlisins sem gefur stjórnendum yfirsýn yfir það hvort flöskuhálsar séu í ferlinu.

Mælaborðið sýnir meðal annars með myndrænum hætti hvar í ferlinu umsóknir eru á hverjum tíma fyrir sig og hversu margar umsóknir koma inn á dag.

Gæða- og skjalastjórnun

Gæðaskjölin tryggja að unnið sé eftir samræmdu verklagi innan sjóðsins

Gæðahandbók sjóðsins er sett upp í CCQ gæðakerfinu, sem heldur utan um gæðaskjöl sjóðsins, þ.e. stefnur, reglur, verklagsreglur, vinnulýsingar, leiðbeiningar og eyðublöð. Kerfið heldur einnig utan um ábyrgðaraðila skjala, útgáfudagsetningar og hvenær tími er kominn á endurskoðun skjala.

Mikil vinna hefur farið fram frá stofnun Birtu lífeyrissjóðs við að sameina og samþætta ferla, reglur og vinnulýsingar frá forverum sjóðsins. Gæðaskjölin tryggja að unnið sé eftir samræmdu verklagi innan sjóðsins og draga úr rekstraráhættu, skjalaáhættu og starfsmannaáhættu.

COVID-19 viðbrögðin

Fordæmalausar aðstæður voru uppi í þjóðfélaginu á árinu 2020 sökum veirufaraldurs, COVID-19 og höfðu þær áhrif á starfsemi sjóðsins

Árið 2020 hefur verið litað af ýmsum áskorunum tengdum COVID-19 heimsfaraldrinum. Sjóðurinn setti öryggi og heilsu starfsmanna og sjóðfélaga í forgang og samheldni tryggði að þjónustan yrði sem best miðað við aðstæður.

Í byrjun árs 2020 gerði Birta lífeyrissjóður ráðstafanir til aðstoðar sjóðfélögum og fyrirtækjum vegna atvinnu- og efnahagsástands í veirufaraldrinum. Sjóðfélagar höfðu þann möguleika að fresta afborgunum lána, töldu þeir sig þurfa á því að halda m.a. vegna atvinnumissis eða tekjubrests. Þá gátu fyrirtæki/launagreiðendur og einyrkjar hjá Birtu lífeyrissjóði sótt um að dreifa greiðslu iðgjalda. Alþingi lögfesti heimild til að sækja um tímabundna útgreiðslu séreignarsparnaðar til að sporna við samdráttaráhrifum í efnahags- og atvinnulífi landsmanna.

Sveigjanleiki starfsmanna sjóðsins í bland við tæknilegan aðbúnað og vilja til að láta hlutina ganga hratt og vel fyrir sig tryggði að vel gekk að þjónusta sjóðfélaga og sinna öðrum verkefnum í heimavinnu án þess að það kæmi niður á afköstum.

Sjóðfélagar nýttu sér þær ráðstafanir sem í boði voru á árinu vegna COVID-19
 • Umsóknir um greiðslufrest á árinu vegna COVID-19 voru 64 vegna sjóðfélagalána og 86 vegna veðlána til fyrirtækja.
 • Beiðnir um greiðslusamkomulag fyrirtækja/launagreiðenda og einyrkja á greiðslu iðgjalda vegna COVID-19 voru 20 á árinu.
 • Umsóknir um útborgun séreignarsparnaðar vegna COVID-19 voru 210 á árinu.