Sjóðfélagalán

Sjóðfélagar sem greitt hafa til samtryggingardeildar hjá Birtu lífeyrissjóði geta fengið hagstæð húsnæðislán, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Birta býður þrjár tegundir lána, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum auk viðbótarláns fyrir kaupendur fyrstu fasteigna.

Lánsupphæð, lánstími og lánskjör

Birta lífeyrissjóður bauð upp á bæði verðtryggð og óverðtryggð lán á góðum kjörum fram til ágústloka 2020 en þá var lokað fyrir nýjar umsóknir um óverðtryggð lán. Veðhlutfall er allt að 75% af kaupverði eignar ef um fyrstu kaup er að ræða, 65% af kaupverði ef um fasteignaviðskipti er að ræða en að öðrum kosti 65% af fasteignamati. Viðbótarlán vegna fyrstu kaupa bættust við lánsframboðið í desember 2019. Þau eru verðtryggð með föstum vöxtum og 0,5% álagi ofan á þá föstu vexti sem í boði eru á hverjum tíma. Almennir fastir verðtryggðir vextir Birtu lífeyrissjóðs sem í boði voru á nýjum lánum í árslok 2020 voru 3,6%. Breytilegir verðtryggðir vextir voru 1,07% en breytilegir óverðtryggðir vextir, 1,85%. Breytilegir verðtryggðir vextir eru endurskoðaðir á þriggja mánaða fresti og fylgja þróun vaxta á íbúðabréfum (HFF150444). Breytilegir óverðtryggðir vextir fylgja þróun meginvaxta Seðlabanka Íslands og eru endurskoðaðir mánaðarlega. Sjóðfélagar hafa val um að endurgreiða lán sín með jöfnum afborgunum eða jöfnum greiðslum, mánaðarlega. Lánstími er 5-40 ár, en 5-15 ár fyrir viðbótarlán vegna fyrstu kaupa og lánsfjárhæð ákvarðast af veðrými, þó að lágmarki 1.000.000 kr. og að hámarki 40.000.000 kr. á einstakling, hjón eða sambúðaraðila.

Lánsréttur hjá Birtu lífeyrissjóði

Lánsrétt hafa sjóðfélagar sem uppfylla að lágmarki eitt eftirfarandi skilyrða:

  • Greiða til sjóðsins á grundvelli kjarasamnings eða skylduaðildar að Samvinnulífeyrissjóðnum.
  • Hafa greitt undanfarna sex mánuði í samtryggingardeild eða eiga þriggja ára samfellda greiðslusögu í sjóðnum.
  • Sama rétt hafa þeir sem uppfylltu eitthvert skilyrðanna þegar taka lífeyris hófst, að uppfylltum öðrum skilyrðum lánareglna.

Lög nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda

Sjóðfélagalán falla undir lög nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda. Lögin leggja ríka skyldu á herðar lánveitendum um upplýsingamiðlun til neytenda. Lögin tóku gildi 1. apríl 2017 og leystu af hólmi eldri lög nr. 33/2013, hvað fasteignalán varðar.

Endurskoðun reglna um lánveitingar

Lánareglur Birtu tóku einu sinni breytingum á árinu 2020 og hafa nýjar lánareglur gilt frá 28. ágúst 2020. Breytingin sem gerð var sneri eingöngu að breyttu lánsframboði en óverðtryggð lán voru tekin af boðstólnum.

Afgreidd sjóðfélagalán

Fjárhæðir í milljónum kr.

2020 2019
Fjárhæð 31.679 20.237
Fjöldi lána 1.383 986
Meðalfjárhæð 22,9 20,5

Nýjungar í afgreiðslu lána

Sjóðfélagar sækja um lán með rafrænum skilríkjum á heimasíðu Birtu, fá rafrænt greiðslumat og afla sjálfir nær allra gagna sem nauðsynleg eru

Miklar framfarir hafa átt sér stað í tengslum við afgreiðslu sjóðfélagalána á undanförnum misserum. Nær allar afgreiddar umsóknir um lán á árinu komu inn með rafrænum hætti og var tekin í notkun ný og þjálli undirritunargátt til undirritunar á kynningargögnum í tengslum við lánsumsóknir, til þess að auka þægindi fyrir lántakendur. Það eina sem þarf enn að undirrita á pappír er skuldabréfið sjálft en Birta tók jafnframt að sér að annast þinglýsingar vegna COVID- 19 heimsfaraldurs, til þess að fækka ferðum einstaklinga til sýslumanns sem hefur einnig jákvæð áhrif á kolefnisspor tengdu lánveitingum hjá Birtu. Á árinu áttu sér stað uppfærslur á lánakerfi sem tengjast úrvinnslu lánsumsókna, skjalagerð lána og skráningu, sem flýtt hafa töluvert afgreiðslu lánsumsókna. Að auki var tekið í notkun mælaborð innanhúss sem auðveldar starfsfólki og stjórnendum að hafa yfirsýn yfir afgreiðsluhraða mála, stöðu mála sem eru í vinnslu og eins yfirsýn yfir afgreidd mál.

Nýjar lánveitingar til sjóðfélaga

Greiðlega gekk að afgreiða lánsumsóknir og önnur lánatengd mál á árinu með rafrænum hætti. Skrifstofa sjóðsins var lokuð stóran hluta ársins vegna COVID-19 heimsfaraldurs. Áfram varð aukning á milli ára á nýjum lánveitingum til sjóðfélaga þrátt fyrir að lokað hafi verið fyrir umsóknir um endurfjármögnunarlán á tímabilinu 4. apríl til 18. júní, auk þess sem lokað var fyrir nýjar umsóknir um óverðtryggð lán 28. ágúst ótímabundið. Ný lán á árinu voru 1.383 talsins borið saman við 986 árið áður. Þar af voru 377 verðtryggð lán með breytilegum vöxtum, 47 verðtryggð lán með föstum vöxtum, af þeim 37 viðbótarlán vegna fyrstu kaupa og 959 óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum. Heildarfjárhæð nýrra lána til sjóðfélaga á árinu 2020 var 31.679 milljónir króna en til samanburðar var heildarfjárhæðin 20.237 milljónir króna árið áður og 13.783 og 7.702 milljónir króna árin þar á undan. Það hefur því orðið mikil aukning í þessari fjárfestingu hjá sjóðnum á undanförnum árum og skýrist það meðal annars af góðum vaxtakjörum. Stjórn hefur þó spornað við offjárfestingu í eignarflokknum með áðurgreindum takmörkunum á framboði lána til sjóðfélaga. Meðalfjárhæð hvers láns var 22,9 milljónir króna á árinu en 20,5 milljónir króna árið áður. Leiðrétt fyrir blönduðum lánum og fyrstu kaupa lánum er meðaltalið töluvert hærra eða 25,2 milljónir króna á lánveitingu.

Fjöldi sjóðfélagalána árið 2020

Ný sjóðfélagalán 2020

fjárhæðir í milljónum króna

Verðtryggð lán

Fastir vextir

Verðtryggð lán

Breytilegir vextir

Óverðtryggð lán

Fjárhæð 264 8.572 22.843
Fjöldi lána 47 377 959
Meðalfjárhæð 5,6 22,7 23,8

Staða, vanskil og uppgreiðsla sjóðfélagalána

Vanskil sjóðfélagalána í sögulegu lágmarki

Komið var til móts við sjóðfélaga sem lentu í greiðsluerfiðleikum á árinu vegna COVID-19 heimsfaraldurs og boðið upp á skilmálabreytingar sem fólu í sér tímabundna greiðslufresti í þeim tilvikum sem sú leið var óhjákvæmileg. Alls voru 64 sjóðfélagalán og 86 veðlán til fyrirtækja fryst tímabundið á árinu. Það eru aðeins 0,14% sjóðfélagalána í fjölda talið miðað við heildarfjölda lána um áramót en fjárhæð frystra lána nam 0,23% af heildarfjárhæð. Af veðlánum til fyrirtækja voru 16,3% lána fryst og heildarupphæð lána sem fryst voru nam 18,4% af útistandandi veðlánum til fyrirtækja miðað um áramót.

Í árslok 2020 voru lán til sjóðfélaga 71,1 milljarður króna en 48,2 milljarðar króna árið áður. Þetta eru um 14,5% af heildareignum sjóðsins borið saman við 11,1% árið áður. 707 lán voru greidd upp á árinu sem er aukning frá árinu áður, en þá voru greidd upp 479 lán. Samtals námu uppgreiðslur 6,7 milljörðum króna en til samanburðar námu þær 3,1 milljörðum króna árið áður. Vanskil sjóðfélagalána í árslok 2020 námu 11,3 milljónum króna og eru það 0,016% sjóðfélagalána og hafa vanskil aldrei verið minni.

Staða sjóðfélagalána í árslok

fjárhæðir í milljónum króna

Verðtryggð lán

Fastir vextir

Verðtryggð lán

Breytilegir vextir

Óverðtryggð lán

Útistandandi lán 5.719 31.781 33.700
Fjöldi lána 425 2.425 1.649
Meðalfjárhæð 13,5 13,1 20,4

Viðbótarlán vegna fyrstu kaupa

Kaupendum fyrstu fasteigna stendur til boða viðbótarlán um þann hluta veðsetningar sem fer umfram 65% af kaupsamningi, allt að 75% veðhlutfall

Birta lífeyrissjóður býður upp á viðbótarlán vegna fyrstu kaupa með föstum verðtryggðum vöxtum sjóðsins að viðbættu 0,5% álagi. Ný viðbótarlán á árinu 2020 voru 37 lán í heildina. Heildarfjárhæð þessara lána voru 128,8 milljónir króna sem gera meðalfjárhæðina 3,5 milljónir króna.

Lán vegna fyrstu kaupa
  • Aukið veðhlutfall eða 75% í stað 65%
  • Viðbótarlán (65%-75%)
  • Lánstími 5-15 ár
  • Jafnar afborganir
  • Fastir vextir
  • 0,5% vaxtaálag
  • Hentar ungum sjóðfélögum í fasteignahugleiðingum

Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar

1. júlí 2017 tóku gildi lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð en þau heimila rétthöfum að verja uppsöfnuðu iðgjaldi séreignar til kaupa á fyrstu íbúð og jafnframt að ráðstafa séreignariðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, upp að ákveðnu hámarki yfir tíu ára samfellt tímabil. Að auki er enn í gildi heimild til ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á lán og til húsnæðissparnaðar samkvæmt eldra úrræði og gildir sú heimild til 30. júní 2021, sbr. lög nr. 60/2019 sem breyttu lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.