Um sjóðinn

Lykiltölur 2020

Starfsemi Birtu lífeyrissjóðs

18,7
Milljarðar í iðgjöld
13,7
Milljarðar í lífeyrisgreiðslur
8,75%
Hrein raunávöxtun
20.034
Virkir sjóðfélagar
491
milljarðar hrein eign
-0,41%
Tryggingafræðileg staða sjóðsins

Fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins

Meginhlutverk Birtu er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri

Birta lífeyrissjóður er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsmanna ef miðað er við hreina eign til greiðslu lífeyris. Sjóðurinn starfar samkvæmt samþykktum sem samþykktar eru á ársfundi hans og síðan staðfestar af fjármálaráðuneytinu í samræmi við lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Með lífeyrissjóði er samkvæmt ofangreindum lögum átt við félag eða stofnun sem veitir viðtöku iðgjaldi til greiðslu ævilangs lífeyris við starfslok, örorku eða andláts samkvæmt samþykktum. Gagnkvæmur félagsskapur felur í sér að sjóðfélagar sameinast um einn sameiginlegan samtryggingarsjóð í því skyni að dreifa áhættu og greiða lífeyri úr sjóðnum samkvæmt samþykktum. Lífeyrissjóðurinn ábyrgist þannig skuldbindingar sínar með eignum sínum og iðgjaldagreiðendur bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins með öðru en iðgjöldum sínum.

Birta lífeyrissjóður tók til starfa 1. desember 2016 og varð til við samruna Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs. Skrifstofa sjóðsins er í Sundagörðum 2, 104 Reykjavík og fer flest öll starfsemi fram þar en einn starfsmaður hefur aðstöðu í Borgarnesi.

Birta lífeyrissjóður á sér sterkar rætur

Þrátt fyrir ungan aldur á sjóðurinn sér djúpar rætur og saga sjóðsins nær aftur til 1939

Birta lífeyrissjóður er sameinaður sjóður sjóðfélaga Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs og tók til starfa undir merki Birtu þann 1. desember 2016. Þrátt fyrir ungan aldur á sjóðurinn sér djúpar rætur og saga sjóðsins nær aftur til ársins 1939 með stofnun lífeyrissjóðs SÍS. Byggingarmenn stofnuðu lífeyrissjóð árið 1958 og í kjölfarið fylgdu fjölmörg iðnfélög fram að almennum kjarasamningum um lífeyrismál árið 1969 þegar sjóðirnir sem mynda Birtu töldust vera fimmtán. Skömmu eftir kjarasamninga hófust sameiningar lífeyrissjóða og telst Birta lífeyrissjóður vera ellefta sameiningin í sögu forvera hans. Við erum stolt af uppruna okkar og sögu og gætum réttinda tæplega 100 þúsund sjóðfélaga og 80 ára samfellda lífeyrissögu sem mynda Birtu lífeyrissjóð.

Sjóðfélagar

Birta lífeyrissjóður er aðildarsjóður en öllum er heimilt að greiða í hann.

Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi ber að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð frá 16 til 70 ára aldurs. Aðild að Birtu lífeyrissjóði byggist samkvæmt samþykktum á ákvæðum kjarasamninga stéttarfélaga, aðild fyrirtækja eða almennum forsendum. Þeim er líka heimil aðild sem hvorki eru bundnir kjarasamningum tengdra stéttarfélaga né njóta ráðningarbundinna starfskjara sem byggð eru á kjarasamningum.

Viðskiptalíkan Birtu

Viðskiptalíkanið lýsir því hvernig sjóðurinn skapar verðmæti og virðisauka fyrir sjóðfélaga og hagaðila

Viðskiptalíkan Birtu byggir á erlendri fyrirmynd, aðferðafræði sem kennd er við virðiskeðju Michael Porter. Aðferðafræðin lýsir því hvernig skipulagsheildin skapar verðmæti fyrir sjóðfélaga og að endingu virðisauka. Viðskiptalíkan Birtu er þannig lýst sem ferillýsing á því hvernig iðgjöld mynda lífeyrisréttindi, hvernig einstaka þættir í starfsemi Birtu skapa sem ein heild sameiginleg verðmæti í öllum aðgerðum með skýrt markmið um að veita ríka tryggingarvernd.

Lykilstarfsemi

Meginstarfsemi Birtu er að taka á móti iðgjöldum, ávaxta þau og greiða út lífeyri samkvæmt samþykktum. Til þess að ná markmiðum sínum er mikilvægt fyrir sjóðinn að kynna og upplýsa um starfsemi sína og veita góða þjónustu, en hvoru tveggja eru þættir sem taldir eru í til lykilþátta í virðiskeðjunni.

Stuðningsstarfsemi

Til að styðja við lykilstarfsemina skipuleggur stjórn sjóðsins starfsemina með skipuriti og í samræmi við lög og reglur. Stjórn setur innri reglur, hefur eftirlit með rekstrinum og tryggir að starfsemin byggi á traustum innviðum. Öflugur mannauður er sjóðnum nauðsynlegur, þetta er stjórnendum ljóst og hafa því lagt ríka áherslu á að tryggja sjóðnum hæfan og öflugan mannauð til starfseminnar. Snar þáttur í stuðningsstarfsemi er viðskiptaþróun sem ætlað er að fanga tækifæri í ytra umhverfi og styðja sem best við lykilstarfsemina og þróun hennar, til að mynda með innleiðingu á tæknilausnum sem auka skilvirkni, hagkvæmni í rekstri og bæta þjónustu við sjóðfélaga. Rekstur sjóðsins er áhættumiðaður þar sem sérstaklega er tekið tillit til margvíslegrar áhættu við rekstur og eignastýringu og leitast við að stýra áhættu í samræmi við áhættuþol og áhættuvilja stjórnar.

Árangursmat viðskiptalíkans

Til þess að meta hvort viðskiptalíkan Birtu leiði til verðmætasköpunar metur sjóðurinn árlega árangur í samræmi við viðskiptalíkanið, bæði á eigindlegan og megindlegan hátt. Megindlegum kennitölum og öðrum tölulegum upplýsingum úr ársreikningi er blandað saman við eigindlegar viðhorfskannanir sem alla jafna eru birtar á einkunnarskalanum 1-5 þar sem 5 er besta einkunn. Þannig er sjálfsmat stjórnar og VR könnun á meðal starfsmanna birt sem 4,6 og 4,5 í einkunn. Leitast er við að samræma aðra matsliði eins og ávöxtun eigna sem sambærilega einkunn á sama skala með vísan í tölulegar upplýsingar í ársreikningi sem sjóðfélagar geta haft sjálfstæða skoðun á. Allt er þetta gert til að hvetja til umræðu um árangur sjóðsins á milli ára og að leitast við að upplýsa sjóðfélaga eins og frekast er kostur.

Árangursmat lykilstarfsemi

Nýliðun og ánægja sjóðfélaga

Markmið stjórnar Birtu er að viðhalda nýliðun sjóðfélaga með varanlegum hætti. Ánægðir sjóðfélagar sem bera traust til sjóðsins eru taldir líklegir til að borga áfram og hafa jákvæð áhrif á aðra. Þess vegna leggur sjóðurinn áherslu á að veita sjóðfélögum frábæra þjónustu með fagmennsku, ábyrgð og heiðarleika að leiðarljósi. Fjöldi virkra sjóðfélaga er birtur í ársreikningi með sögulegum samanburði og ánægja sjóðfélaga er mæld með þjónustukönnun í móttöku sjóðsins.

Ávöxtun eigna

Til þess að eignir standi undir skuldbindingum þarf hrein raunávöxtun til lengri tíma að vera hærri en 3,5%. Árangur af fjárfestingarstarfsemi Birtu er birtur í ársreikningi sem hrein raunávöxtun síðasta árs og sem meðaltal hreinnar raunávöxtunar fyrir 5 og 10 ár. Við mat á frammistöðu er horft til þessa meðaltals sem og þeirra viðmiðunarvísitalna sem birtar eru í fjárfestingarstefnu Birtu á hverju ári að teknu tilliti til áhættu.

Tryggingafræðileg staða

Til þess að veita þá tryggingarvernd sem sjóðurinn vill uppfylla samkvæmt samþykktum þarf tryggingarfræðileg staða sjóðsins að vera innan þeirra marka sem samþykktir og lög gera ráð fyrir. Tryggingafræðileg athugun er birt í ársreikningum þar sem verðmæti eigna sjóðsins og iðgjalda er borið saman við skuldbindingar til greiðslu lífeyris. Við mat á árangri er horft til breytinga á tryggingafræðilegri stöðu á milli ára og hvers eðlis breytingin er.

Árangursmat stuðningsstarfsemi

Árangursmat stjórnar

Stjórn Birtu leggur árlega mat á árangur af stjórnarstarfinu og skipulag sjóðsins með sjálfs- og árangursmati. Matið er viðhorfskönnun á meðal stjórnarmanna er lýtur að fjölmörgum þáttum í starfi stjórnar þar sem hverjum þætti er gefin einkunn á bilinu 1-5. Meðaltal síðasta mats var 4,6 sem komið er til valnefndar sem rýnir störf stjórnar í aðdraganda kjör- og ársfundar.

Mannauður

Markmið Birtu er að ráða, efla og halda hæfu og traustu starfsfólki sem býr yfir yfirburða þekkingu og/eða reynslu og vinnur saman að því að leita ávallt bestu lausna fyrir sjóðfélaga sjóðsins. Gallup sér um að framkvæma könnun, Fyrirtæki ársins, fyrir VR einu sinni á ári og hefur þátttaka starfsmanna Birtu verið 100%. Í könnuninni er metið innra starfsumhverfi sjóðsins. Þessar mælingar hjálpa stjórnendum að átta sig á líðan starfsfólks og stöðu mála hjá sjóðnum og meta í hvaða málefnum úrbóta er þörf og hvaða þættir eru jákvæðir og í góðum farvegi.

Viðskiptaþróun, kostnaður og skilvirkni

Snar þáttur í starfsemi Birtu er viðskiptaþróun sem miðar að því að auka skilvirkni í starfsemi sjóðsins. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af heildareignum og iðgjöldum ásamt fjöldi starfsmanna eru viðmiðunarkennitölur sem lesa má úr ársreikningi og notaðar eru til að meta árangur af viðskiptaþróun. Markvisst er leitast við að draga úr óþarfa kostnaði án þess að ganga of nærri rekstraröryggi sjóðsins.

Áhættumiðaður rekstur og hlíting

Frávik í starfsemi Birtu lífeyrissjóðs eru óumflýjanleg og af þeim ástæðum heldur sjóðurinn úti áhættustýringu, innra eftirliti og endurskoðunarnefnd sem styður stjórn í eftirliti með starfseminni. Þá lýtur sjóðurinn eftirliti ytri aðila eins og Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og inni og ytri endurskoðenda. Frávik í starfsemi Birtu teljast til árangursmælikvarða þar sem leitast er við að draga úr frávikum eins og kostur er og meta þróun þeirra á milli ára. Endurskoðunarnefnd og stjórn fylgjast með frávikum og ábendingum um það sem betur má fara og meta árangur af viðbrögðum og umbótastarfi sjóðsins.