Ávarp stjórnarformanns

Hrönn Jónsdóttir

Kæru sjóðfélagar

Árið 2020 var hagfelldara fyrir Birtu lífeyrissjóð en við þorðum að vona í upphafi árs. Heimsfaraldurinn, COVID-19, sem skall á okkur af miklum þunga í mars mánuði 2020 hafði mikil áhrif á starfsemi sjóðsins og þrátt fyrir miklar takmarkanir tókst okkur að viðhalda samfelldum rekstri og þjónustu við sjóðfélaga allt árið. Þar skiptu miklu máli þær tæknilausnir sem sjóðurinn hafði byggt upp, lausnir sem gerir sjóðfélögum kleift að afgreiða sín mál gegnum „Mínar síður“ hjá Birtu. Það skipti þá ekki litlu máli sá mannauður sem sjóðurinn býr yfir, reynsla og þekking til að bregðast við áskorunum. Það var erfitt að sjá fyrir þær efnahagslegu afleiðingar sem faraldurinn hafði í för með sér en ekki eins erfitt að sjá fyrir viðbrögð sjóðsins. Fagleg og fumlaus vinnubrögð hvort sem það var frá vinnustað eða að heiman, vönduð vinnubrögð sem skiluðu sjóðnum í gegnum fyrsta áfanga.

Sjóðurinn stendur styrkum fótum og tryggingafræðileg staða hans um síðustu áramót sýnir að sjóðurinn er svo gott sem í jafnvægi hvað eignir og skuldbindingar varðar. Það þarf mikið að ganga á til að raska þessu jafnvægi en heimsfaraldurinn minnir okkur á að óvissa í rekstri getur verið dulin. Við metum áhættu og leitumst við að reikna líkur á atburðum sem geta haft neikvæð áhrif á sjóðinn og er ekki COVID-19 ágætis áminning um að sumt er erfitt að reikna. Jafnvel þó líkur á heimsfaraldri hafi legið fyrir var enn erfiðara að meta áhrifin, rýna nokkra mánuði fram í tímann og byggja upp sviðsmyndir. Mestu máli skiptir að vera meðvituð um að óvissa ríkir um allt sem við gerum og besta leiðin til að mæta henni er að vera vel undirbúin. Bregðast við atburðum þegar þeir raungerast af fagmennsku og ábyrgð. Það gerðum við og síðasta árs verður minnst sem árs tíðra netfunda og rafrænna samskipta þar sem við stýrðum sjóðnum í gegnum þann öldudal sem heimsfaraldurinn framkallaði.

Við erum reglulega minnt á þá staðreynd að ávöxtun eigna á milli ára er sveiflukennd, en það er afkoma til lengri tíma sem skiptir mestu máli. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar Birtu og forvera hans s.l. fimm og tíu ár er yfir 5,0% sem er vel yfir langtíma viðmiðum um 3,5%. Eins mikið og við fögnum því erum við meðvituð um þær framtíðar áskoranir sem blasa við okkur öllum sem gæti talist næsti áfangi COVID-19. Tryggingafræðileg afkoma Birtu á síðasta ári ber þess nokkur merki hvað kann að vera í vændum. Lágt vaxtastig birtist okkur sem neikvæður mismunur á bókfærðu verði skuldabréf og núvirði þeirra í tryggingarfræðilegu mati. Mismunurinn var neikvæður um 19 milljarða á síðasta ári og þrátt fyrir mjög góða 8,75% raunávöxtun eigna batnar tryggingafræðilega staðan aðeins um 1,4% á milli ára.

Tryggingafræðileg afkoma skiptir mestu máli, því okkar meginhlutverk er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri, hlutverk sem við megum ekki missa sjónar af. Til þess að tryggja lífeyri þurfa iðgjöld og eignir Birtu að standa undir þeirri skuldbindingu og við þurfum að umgangast eignir af ábyrgð. Til þess að Birta lífeyrissjóður teljist byggja á traustum grunni verðum við að ástunda ábyrga hegðun í rekstri og fjárfestingum og vera til fyrirmyndar þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð og sjálfbærni. Við sýnum þessa ábyrgð í verki með því að miðla til sjóðfélaga ársskýrslu Birtu samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæran rekstur. Auk ársreiknings sem margir hafa vanist að lesa birtum við ykkur upplýsingar er varða umhverfið, samfélagið og stjórnarhætti okkar. Það er okkar samfélagsábyrgð í verki og þannig sýnum við hana.

Birtuskógurinn í Haukadal vex og dafnar og gerir rekstur Birtu kolefnishlutlausan næstu 35 árin og meira til. Skógurinn er ákveðin táknmynd þess sem okkur langar að gera, taka virkan þátt í átaki gegn loftslagsbreytingum. Við viljum skilja þá umhverfisvá sem svo margir lýsa áhyggjum yfir, byggja upp þekkingu og leita leiða til sporna við loftlagsáhættu. Kolefnishlutlaus rekstur á skrifstofu er bara byrjunin, við ætlum að nýta þá reynslu og þekkingu sem fylgir umhverfisvottun í þágu umhverfisins. Ekki bara borga lífeyri eftir 40 ár til þeirra ungu sjóðfélaga sem komu inn á síðasta ári, heldur líka stuðla að sjálfbæru umhverfi fyrir þá til framtíðar.

Birta lífeyrissjóður byggir tilvist sína á samfélaginu sem við lifum og hrærumst í. Við fylgjum sjóðfélögum á lífsins leið og berum mikla ábyrgð. Við veitum ungum fólki sjóðfélagalán til að koma þaki yfir höfuðið og greiðum fjölskyldubætur til þeirra sem missa maka sína. Við greiðum sjóðfélögum örorkulífeyri þegar þeir missa starfsgetu til skemmri eða lengri tíma og eftirlaunalífeyri við starfslok. Samfélagsleg ábyrgð er hluti af okkar starfsemi, okkar DNA og þess vegna birtum við ársskýrslu Birtu í samræmi við alþjóðleg viðmið um samfélagslega ábyrgð. Við hvetjum ykkur til að rýna ársskýrsluna og fræðast um okkar nálgun, við teljum okkur vera í fararbroddi hvað upplýsingamiðlun um samfélagslega ábyrgð varðar.

Hvernig gekk á síðasta ári ? Þegar stór er spurt er oft fátt um svör. Viðskiptalíkan Birtu sem lýst er í ársskýrslu miðar að því að skapa verðmæti fyrir sjóðfélaga og til þess að svara spurningunni höfum við komið okkur upp árangursmælikvörðum sem tengja má beint við viðskiptalíkanið. Þannig gefst kostur á að meta það í stjórn, með starfsfólki og ykkur hvernig okkur gengur. Heiðarlega svarið er að þrátt fyrir krefjandi aðstæður árið 2020 náðum við góðum árangri á mörgum sviðum.

Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður sem hlutfall af eignum er 0,16% og lækkar á milli ára hjá okkur á sama tíma og þjónustan batnar. Tæknilegar framfarir í þjónustu teljast til viðskiptaþróunar og síðasta ár sýndum við hversu vel við vorum undirbúin fyrir áföll. Rafrænar lausnir tryggðu okkur samfelldan rekstur. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar fyrir bæði síðastliðin fimm og tíu ár er yfir 5% og 8,9% hrein raunávöxtun á síðasta ári er ekki bara heppni. Vel útfærð fjárfestingarstefna og fagleg framkvæmd hennar skilaði okkur góðum árangri. Starfsmannabragur sjóðsins er í lagi og það skiptir okkur máli, ánægðir starfsmenn veita góða þjónustu. Við vitum að árangur er afstæður og margir bera okkur fyrst og fremst saman við aðra þegar þeir taka afstöðu. Við gerum það líka og þess vegna taka árangursmælikvarðar okkar mið af okkar markmiðum og samanburði við aðra. Við vitum að hægt er að gera betur, það er alltaf hægt að gera betur. Mestu máli skiptir að vera ánægð með það sem hefur áunnist, að við höfum náð mörgum af okkar markmiðum og árangursmælikvarðarnir endurspegla það.

Ég þakka starfsfólki Birtu fyrir vel unnin störf á síðasta ári, stjórnamönnum fyrir hreinskiptið og faglegt samstarf. Síðast en ekki síst þakka ég sjóðfélögum öllum fyrir þátttöku í sjóðnum, þið eruð okkar samfélag og ég óska ykkur öllum alls hins besta.