Ábyrgar fjárfestingar

Birta lífeyrissjóður er aðili að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN Principles for Responsible Investment). Reglurnar voru samdar af leiðandi lífeyrissjóðum og eignavörslufyrirtækjum víða um heim í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og hafa margir af stærstu lífeyrissjóðum Vesturlanda undirgengist reglurnar.

Reglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar

Með því að marka stefnu um ábyrgar fjárfestingar stuðlar Birta að jákvæðari áhrifum á umhverfið, heilbrigðara atvinnulífi og bættum samskiptum við hagaðila

Aðalmarkmið með reglunum er að leiðbeina stofnanafjárfestum um ábyrgar fjárfestingar og stuðla að jákvæðum áhrifum á umhverfið, félagslega þætti og stjórnarhætti til að draga úr áhættu og skila langtíma ávöxtun. Þar með falla reglurnar almennt vel að hlutverki og eðli lífeyrissjóða enda hafa þeir þýðingarmiklu samfélagslegu hlutverki að gegna og sjóðfélagar gera kröfu um að þeir axli samfélagslega ábyrgð.

Fjárfestingarstefna Birtu er ákveðin af stjórn sjóðsins og markar hún stefnu um hvernig eignasamsetningu sjóðsins skuli háttað að teknu tilliti til ávöxtunar og áhættu sem eru frumskilyrði stefnunnar. Að sama skapi skuldbindur Birta sig til að taka tillit til umhverfislegra og félagslegra þátta við fjárfestingar sínar, auk þess sem lögð er áhersla á góða stjórnarhætti fyrirtækja sem fjárfest er í.

Verklag við mat á fjárfestingum

Eignastýring Birtu hefur sett sér verklag við mat á ábyrgum fjárfestingum í starfseminni þar sem horft er til þriggja grunnþátta sjálfbærni; umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta. Samhliða því er sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð (e. UN Global Compact) hafður til hliðsjónar við eignastýringu sjóðsins. Með því skuldbindur sjóðurinn sig til þess að hafa stefnu og starfshætti í samræmi við tíu meginreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnumál, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu.

Birtu ber árlega að skila PRI skýrslu, tilgreina eignasafn sitt og upplýsa hvernig sjóðurinn tryggir eða reynir að tryggja að eigin fjárfestingarstarfsemi og samstarfsaðila samræmist markmiðum um ábyrgar fjárfestingar.

Þegar búið er að gera grein fyrir skipulagi sjóðsins, stærð hans og samsetningu eignasafns er kannað ítarlega hvernig Birta framfylgir hlutverki sínu sem samfélagslega ábyrgur fjárfestir; annars vegar sem eigandi og hins vegar sem lánveitandi. Enn fremur er kannað hvernig starfsmenn sjóðsins sjá til þess að fjármunum, sem stýrt er af þriðja aðila, sé sannarlega stýrt með hagsmuni sjóðsins og samfélagsins í heild að leiðarljósi.

Birta vinnur að því að innleiða sex grundvallarviðmið um ábyrgar fjárfestingar.
  1. Birta tekur mið af umhverfisþáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS) við mat á fjárfestingarkostum og við ákvarðanir um fjárfestingar.
  2. Birta er virkur eigandi hlutabréfa og tekur tillit til UFS í eigendastefnu og aðgerðum.
  3. Birta mun sækjast eftir viðeigandi upplýsingum um UFS málefni frá aðilum sem sjóðurinn fjárfestir í.
  4. Birta mun beita sér fyrir því að reglur Sameinuðu þjóðanna verði viðurkenndar og innleiddar í fjárfestingarstarfsemi.
  5. Stjórn og starfsmenn Birtu mun vinna saman að því að auka árangur og hæfni til að framfylgja reglunum.
  6. Eignastýring skilar skýrslum um starfsemi sjóðsins og upplýsir um árangur innleiðingar reglnanna.

Fjárfestingar og umhverfisþættir

Umhverfisviðmið varða frammistöðu og eftirlit í loftslags- og umhverfismálum og hvernig gætt er að umhverfisáhrifum tiltekinnar starfsemi. Birta er að innleiða ISO 14001 umhverfisstaðal sem gerir kröfu um að sjóðurinn kynni sér þær aðgerðir sem fjárfestingar sjóðsins hafa gert í umhverfismálum.

Fjárfestingar og félagslegir þættir

Þegar kemur að félagslegum viðmiðum er hugað að mannauði og því umhverfi sem fjárfestingarnar starfa í. Sem dæmi um þátt sem horft er til er jafnrétti innan viðkomandi fyrirtækis, jafnlaunavottun, almenn mannréttindi og heilsa og öryggi starfsmanna.

Fjárfestingar og stjórnarhættir

Þegar kemur að ábyrgum fjárfestingum þá hefur Birta lífeyrissjóður hingað til lagt mesta áherslu á leiðbeiningar um stjórnarhætti íslenskra fyrirtækja og tekið virkan þátt í umræðu um stjórnarhætti. Þá hefur sjóðurinn vakið athygli á þáttum sem er ábótavant hjá fyrirtækjum að mati sjóðsins og óskað eftir skýringum þar um. Sem dæmi um hvernig eigendastefnu sjóðsins er framfylgt þegar kemur að stjórnarháttum innlendra félaga birtir sjóðurinn yfirlit yfir atkvæðagreiðslur og tillögur Birtu á aðalfundum skráðra innlendra hlutafélaga á heimasíðu sjóðsins.

Innlendar og erlendar fjárfestingar

Eðli máls samkvæmt er munur á verklagi við innlendar fjárfestingar annars vegar og erlendar fjárfestingar hins vegar.

Sjóðnum gefst betra tækifæri til að fylgjast með fjárfestingum á heimamarkaði, en á erlendum mörkuðum. Starfsmenn Birtu sækja alla hluthafafundi í innlendum félögum sem Birta á eignarhluti í. Þá leggur sjóðurinn áherslu á að samskipti eigenda og einstakra félaga eigi sér stað á slíkum vettvangi til að tryggja jafnræði allra hluthafa að upplýsingum. Það útilokar þó ekki að sjóðurinn eigi tvíhliða viðræður við forsvarsmenn félaga sem hann er hluthafi í, til dæmis í aðdraganda ársfunda, en umfjöllunarefnið er að sjálfsögðu einskorðað við opinberar upplýsingar.

Sjóðurinn kallar nú eftir því hvort fyrirtæki sem fjárfest er í, hafi sett sér stefnu um samfélagsábyrgð og leggur auk þess áherslu á að fyrirtæki, óháð stærð, tileinki sér ófjárhagslega upplýsingamiðlun.

Birta fylgist jafnframt með erlendum fjárfestingum og kallar til dæmis eftir UFS stefnu viðkomandi fyrirtækja, svo sem verðbréfasjóða og annarra fjárvörsluaðila sem sjóðurinn á hlutdeild í.