Samningur Birtu við skógræktina
Skógrækt á þremur hekturum lands í Haukadal er lykill að því að gera Birtu kolefnisjákvæðan lífeyrissjóð. Árið 2018 gerðu Birta lífeyrissjóður og Skógræktin með sér samning til þriggja ára um gróðursetningu alls 7.500 trjáplantna í Haukadal fyrir árslok 2020.
Kolefnisbindingin og kolefnisforði í trjám, botngróðri og jarðvegi í Birtureitnum á Haukadalsheiði verður eign sjóðsins til ársins 2068.
Mikilvægur liður í reglulegri fræðslu starfsmanna
Skógræktin í Haukadal er sýnileg ráðstöfun og markvisst framtak til að ná markmiðum Birtu í umhverfis- og loftlagsmálum. Starfsmenn sjóðsins tóku þátt í að gróðursetja trjáplöntur árið 2019 undir styrkri stjórn starfsmanna Skógræktarinnar, tileinkuðu sér verklagið og fræddust um skógrækt og samspil skógræktar, kolefnisbindingar, landnotkunar og loftslagsmála. Ferð starfsfólks árið 2020 í Haukadal var hins vegar ekki farin vegna COVID-19 en starfsmenn Skógræktarinnar sáu til þess að gróðursetja þær 2.500 trjáplöntur sem áætlað var að gróðursetja í reitinn í Haukadal á árinu 2020.
Starfsmenn Birtu og fjölskyldur þeirra munu næstu áratugina fylgjast með skóginum vaxa og dafna í Haukadal, á landi sem áður var gróðursnautt að miklu leyti.