Árangursmat stjórnar
Stjórn Birtu leggur árlega mat á árangur af stjórnarstarfinu og skipulag sjóðsins með sjálfs- og árangursmati. Matið er viðhorfskönnun á meðal stjórnarmanna er lýtur að fjölmörgum þáttum í starfi stjórnar þar sem hverjum þætti er gefin einkunn á bilinu 1-5. Meðaltal síðasta mats var 4,6 sem komið er til valnefndar sem rýnir störf stjórnar í aðdraganda kjör- og ársfundar.
Mannauður
Markmið Birtu er að ráða, efla og halda hæfu og traustu starfsfólki sem býr yfir yfirburða þekkingu og/eða reynslu og vinnur saman að því að leita ávallt bestu lausna fyrir sjóðfélaga sjóðsins. Gallup sér um að framkvæma könnun, Fyrirtæki ársins, fyrir VR einu sinni á ári og hefur þátttaka starfsmanna Birtu verið 100%. Í könnuninni er metið innra starfsumhverfi sjóðsins. Þessar mælingar hjálpa stjórnendum að átta sig á líðan starfsfólks og stöðu mála hjá sjóðnum og meta í hvaða málefnum úrbóta er þörf og hvaða þættir eru jákvæðir og í góðum farvegi.
Viðskiptaþróun, kostnaður og skilvirkni
Snar þáttur í starfsemi Birtu er viðskiptaþróun sem miðar að því að auka skilvirkni í starfsemi sjóðsins. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af heildareignum og iðgjöldum ásamt fjöldi starfsmanna eru viðmiðunarkennitölur sem lesa má úr ársreikningi og notaðar eru til að meta árangur af viðskiptaþróun. Markvisst er leitast við að draga úr óþarfa kostnaði án þess að ganga of nærri rekstraröryggi sjóðsins.
Áhættumiðaður rekstur og hlíting
Frávik í starfsemi Birtu lífeyrissjóðs eru óumflýjanleg og af þeim ástæðum heldur sjóðurinn úti áhættustýringu, innra eftirliti og endurskoðunarnefnd sem styður stjórn í eftirliti með starfseminni. Þá lýtur sjóðurinn eftirliti ytri aðila eins og Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og inni og ytri endurskoðenda. Frávik í starfsemi Birtu teljast til árangursmælikvarða þar sem leitast er við að draga úr frávikum eins og kostur er og meta þróun þeirra á milli ára. Endurskoðunarnefnd og stjórn fylgjast með frávikum og ábendingum um það sem betur má fara og meta árangur af viðbrögðum og umbótastarfi sjóðsins.