Mannauður

Markmið Birtu er að ráða, efla og halda hæfu og traustu starfsfólki sem býr yfir yfirburða þekkingu og reynslu og vinnur saman að því að leita ávallt bestu lausna fyrir sjóðfélaga.

Hæfni og ánægja starfsmanna er forsenda árangurs

Ánægja og vellíðan starfsfólks okkar er undirstaða þeirrar góðu þjónustu sem við viljum að sjóðfélagar og aðrir upplifi í samskiptum sínum við sjóðinn.

Við búum yfir einstökum mannauði, hæfu og reynslumiklu fólki sem leggur sig allt fram í sínum störfum og er samvinna mikilvæg innan og á milli allra deilda sjóðsins. Sjóðurinn leggur áherslu á gott og fjölskylduvænt starfsumhverfi, fræðslu, þjálfun og jákvæðan starfsanda.

Upplýsingagjöf til starfsmanna skiptir miklu máli og eru starfsmannafundir haldnir reglulega til upplýsinga og samtals. Ánægjukannanir eru framkvæmdar reglulega meðal starfsmanna og niðurstöður þeirra rýndar og ræddar. Leitað er leiða til úrbóta ef upp á vantar.

Starfsmannafélag Birtu stuðlar að fjölbreyttu og öflugu félagslífi og skipuleggur viðburði fyrir starfsfólk, sem dæmi má nefna árshátíð, jólahlaðborð, óvissuferðir, gönguferðir, spilakvöld og keilukvöld. Öllum starfsmönnum býðst aðild að starfsmannafélagi Birtu.

Lista yfir starfsfólk Birtu má finna á vef sjóðsins.

Starfsfólk Birtu lífeyrissjóðs er fjölbreyttur hópur

29
FJÖLDI STARFSFÓLKS MANNS
49
MEÐALALDUR STARFSFÓLKS ÁR
10,5
MEÐAL STARFSALDUR ÁR

Nýráðningar starfsmanna og starfsmannavelta

Birta leggur áherslu á að ráða til starfa hæft starfsfólk og allar ráðningar byggja á hæfni, menntun og starfsreynslu. Starfsmannavelta á árinu 2020 var 3,6%. Um er að ræða valkvæða starfsmannaveltu, en einn starfsmaður lét af störfum sökum aldurs, nýráðningar voru tvær en engin starfsmaður fór í fæðingarorlof á árinu.

Jafnrétti er okkur mikilvægt

Birta var fyrst lífeyrissjóða til að öðlast jafnlaunavottun

Birta lífeyrissjóður leggur mikla áherslu á jafnrétti kynjanna og hlaut jafnlaunavottun í júní 2019 á grundvelli jafnlaunastaðalsins ÍST 85. Staðallinn er stjórnunarstaðall fyrir jafnlaunakerfi sem tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja beina og óbeina mismunun vegna kyns. Sjóðurinn tók í notkun líkan sem greinir áhrif hverrar einstakrar launaákvörðunar á kynbundinn launamun. Jafnlaunavottunin staðfestir að þau sjónarmið sem Birta leggur til grundvallar við ákvörðun launa og þær ákvarðanir sem hafa verið teknar á grundvelli líkansins uppfylla ákvæði laga nr. 56/2017 um jafnlaunavottun og að starfsfólki sjóðsins sé ekki mismunað á grundvelli kyns þess.

Ekki hefur komið upp mismunun á grundvelli kyns hjá sjóðnum. Leitað er eftir óútskýrðum kynbundnum launamun frá mánuði til mánaðar. Stjórnendur sjóðsins vinna eftir fyrirfram ákveðnu verklagi jafnlaunavottunar.

5-1.png

Fræðsla og starfsþróun

Vellíðan á vinnustað er í hávegum höfð og hlúð vel að starfsmönnum

Fræðsla, endurmenntun og reglubundin þjálfun er hluti af daglegum störfum starfsmanna. Skipulögð þjálfun og fræðsla fer fram hjá sjóðnum allt árið. Við stöndum fyrir reglulegum fyrirlestrum með það að markmiði að byggja upp þekkingu og færni starfsmanna okkar í samræmi við stefnu okkar og gildi. Fræðslustarf sjóðsins skiptist annars vegar í sérhæfða endurmenntun og hins vegar í almenna fræðslu.

Fræðslustarf nam 921 klukkustund árið 2020 og jafngildir það því að allir starfsmenn sjóðsins hafi að meðaltali hlotið 32 klukkustundir í þjálfun á árinu. Um 36% af fræðslustundum ársins eru vegna endurmenntunar, starfs- og síþjálfunar sem starfsmenn þurfa á að halda til að viðhalda réttindum og hæfni til að sinna störfum sínum. Um er að ræða starfsmenn sem eru að viðhalda réttindum í löggiltri endurskoðun, sem viðurkenndir bókarar og styrkja þekkingargrunn til eigna- og áhættustýringar. Starfsmenn annarra sviða og deilda sækja einnig námskeið og fræðslufundi.

Árlegt starfsmannasamtal er hluti af starfsþróun hvers starfsmanns okkar. Samtalið gefur starfsmanni og stjórnanda færi á að ræða verkefni, líðan, vinnuaðstöðu, það sem betur má fara og aðgerðir til úrbóta. Starfsmannasamtalið er jafnframt tæki starfsmanns til að hafa áhrif á eigið starf, hæfni, starfsþróun og fræðslu.

Heilsa og starfsumhverfi

Starfsfólk sjóðsins er mikilvæg auðlind

Við leitumst við að auka heilbrigði starfsmanna okkar með því að skapa gott vinnuumhverfi og hvetjum til alhliða heilsueflingar ásamt því að veita fræðslu um þá þætti er stuðla að góðri heilsu. Við stuðlum að heilbrigðum lífsstíl og erum heilsueflandi lífeyrissjóður. Við hvetjum starfsfólk til þátttöku í athöfnum sem auka heilsu og vellíðan bæði innan sem utan vinnustaðar og bjóðum upp á hollt og næringarríkt fæði í mötuneyti sjóðsins.

Við leggjum áherslu á að efla vitund starfsmanna um mikilvægi þess að lifa heilbrigðu lífi og sýnum með þeim hætti fram á að sjóðnum er annt um heilsu og öryggi starfsmanna sinna. Markmið okkar er að stuðla að aukinni andlegri og líkamlegri vellíðan starfsfólks, að búa starfsmönnum gott vinnuumhverfi og að mæta andlegum, félagslegum og líkamlegum þörfum starfsmanna okkar á vinnustaðnum.

Iðjuþjálfi fer reglulega yfir starfsstöðvar starfsmanna og leiðbeinir þeim hvað varðar stillingar á stólum, borðum og öðrum þeim búnaði sem starfsmenn þurfa á að halda við störf sín. Niðurstöður sérfræðingsins eru svo notaðar til að bæta úr þar sem þörf er á.

Starfsfólk hefur ekki þurft að vera frá vinnu vegna slysa á vinnustað eða vegna atvinnutengdra sjúkdóma.

Sjóðnum er umhugað um að vinnuaðstaða starfsmanna sé fullnægjandi svo ekki skapist hætta á því að þeir þrói með sér starfstengda sjúkdóma. Einnig eru starfsmenn upplýstir um stöðu og beitingu líkamans við vinnu til að lágmarka líkur á því að þeir þrói með sér starfstengda sjúkdóma. Hugað er að andlegri líðan starfsfólks með sveigjanleika, fræðslu og óheftu aðgengi að stjórnendum ef starfsmaður kýs að bera málefni sem upp koma undir þá.

Við erum heilsueflandi og hvetjum starfsfólk okkar til hreyfingar og heilbrigðs lífernis
  • Við bjóðum upp á árlegar heilsufarsskoðanir starfsmanna ásamt inflúensubólusetningu.
  • Iðjuþjálfi yfirfer vinnustöðvar starfsmanna reglulega og kemur með tillögur að úrbótum.
  • Við tökum þátt í heilsutengdum málefnum eins og bleikum föstudegi í anda Bleiku slaufunnar, hjólað í vinnuna og skipuleggjum heilsueflandi viðburði sem starfsfólk á kost á að taka þátt í.
  • Við bjóðum reglulega upp á fyrirlestra tengda andlegri og líkamlegri heilsu.
  • Við bjóðum öllum starfsmönnum okkar upp á styrk til að stunda heilsurækt.
  • Líkamsræktaraðstaða er til staðar á starfsstöð sjóðsins í Sundaboganum.
  • Við hlúum að vinnuverndarmálum í því skyni að draga úr atvinnutengdum sjúkdómum og slysum.

Starfsfólk Birtu fór hringinn

Starfsfólk Birtu lét ekki samkomu- og ferðatakmarkanir stoppa sig í að fara saman í ferðalag

Mikil áhersla var lögð á heilsu og hreyfingu á meðan heimavinnu starfsmanna stóð yfir. Að fara hringferð um landið er án efa eitt vinsælasta ferðalag landsmanna. Á tímum COVID-19 var hins vegar lítið um ferðalög og þar sem vinsælasta upplyfting starfsmanna á þessum tíma voru gönguferðir og að fara út að hlaupa var tekin ákvörðun um að safna saman kílómetrum með hreyfingu og fara þannig saman hringinn í kringum landið. Ferðin var þó ekki farin í bókstaflegri merkingu heldur var farið í sýndarferðalag og skráðu starfsmenn alla hreyfingu, göngu, hlaup, hjól eða sund yfir daginn í skjal þar sem haldið var utan um kílómetrana. Á Workplace, samskiptasíðu starfsmanna fylgdust starfsmenn með ferðalaginu og deildu ferðasögum, fróðleik um áfangastaðina og myndum af þeim hluta ferðarinnar sem farinn var.

Upphaflega ferðaplanið gerði ráð fyrir 2.772 kílómetrum en þar sem starfsmenn voru svo áhugasamir söfnuðust samtals 3.345 kílómetrar.

  • Konurnar fóru samtals 1.797 kílómetra á 14.459 mínútum eða 240,9 klukkutímum. Það voru samtals 327 hreyfidagar hjá konunum.
  • Karlarnir fóru samtals 1.548 kílómetra á 8.191 mínútu eða 136,5 klukkutímum. Það voru samtals 149 hreyfidagar hjá körlunum.

Birtuhringur

Aðstæður vegna COVID-19 heimsfaraldurs

Fordæmalausar aðstæður voru uppi í þjóðfélaginu á árinu 2020 sökum veirufaraldurs, COVID-19 og höfðu þær áhrif á starfsemi sjóðsins, sem náði þrátt fyrir erfiða tíma að halda uppi góðri þjónustu við sjóðfélaga. Starfsfólk okkar sýndi mikinn skilning og þrautseigju á árinu þegar sjóðurinn þurfti á því að halda að starfsfólk sinnti vinnu sinni svo vikum og mánuðum skipti að heiman. Starfsfólk lagði til húsnæði sitt og kom sér upp vinnustöðvum á heimilum sínum. Sjóðurinn útvegaði búnað, tæki, tól og öruggar tengingar svo unnt væri að sinna störfum sjóðsins og þjónusta sjóðfélaga og aðra heiman að. Mjög vel var gætt að sóttvörnum á vinnustað bæði hvað varðar starfsmenn okkar og gesti og smitaðist enginn starfsmanna sjóðsins af veirunni á árinu.

Faraldurinn hafði talsverð áhrif á starfsemi sjóðsins. Einvala lið starfsmanna okkar stillti saman strengi og allir lögðust á eitt við að halda uppi góðri þjónustu við sjóðfélaga og aðra, innan ramma reglna og tilmæla. Starfsfólk kom upp starfsstöðvum á heimilum sínum og vann heima svo vikum og mánuðum skipti. Í aðstæðum sem þessum er mikilvægt að hlúa að starfsanda og tengslum starfsfólks. Það gerðum við með reglulegum fjarfundum og uppákomum. Þessi tími kenndi okkur margt, ekki síst hvað það er dýrmætt að eiga góða og trausta vinnufélaga þegar gefur á bátinn. Við gerðum þetta öll saman og það skilaði okkur í höfn.
Hanna Þ. Skúladóttir
Forstöðumaður skrifstofu- og rekstrarsviðs