Komið var til móts við sjóðfélaga sem lentu í greiðsluerfiðleikum á árinu vegna COVID-19 heimsfaraldurs og boðið upp á skilmálabreytingar sem fólu í sér tímabundna greiðslufresti í þeim tilvikum sem sú leið var óhjákvæmileg. Alls voru 64 sjóðfélagalán og 86 veðlán til fyrirtækja fryst tímabundið á árinu. Það eru aðeins 0,14% sjóðfélagalána í fjölda talið miðað við heildarfjölda lána um áramót en fjárhæð frystra lána nam 0,23% af heildarfjárhæð. Af veðlánum til fyrirtækja voru 16,3% lána fryst og heildarupphæð lána sem fryst voru nam 18,4% af útistandandi veðlánum til fyrirtækja miðað um áramót.
Í árslok 2020 voru lán til sjóðfélaga 71,1 milljarður króna en 48,2 milljarðar króna árið áður. Þetta eru um 14,5% af heildareignum sjóðsins borið saman við 11,1% árið áður. 707 lán voru greidd upp á árinu sem er aukning frá árinu áður, en þá voru greidd upp 479 lán. Samtals námu uppgreiðslur 6,7 milljörðum króna en til samanburðar námu þær 3,1 milljörðum króna árið áður. Vanskil sjóðfélagalána í árslok 2020 námu 11,3 milljónum króna og eru það 0,016% sjóðfélagalána og hafa vanskil aldrei verið minni.